Hrossaræktin mín

Embla

Embla frá Valhöll er hæst dæmda hrossið úr ræktuninni.

Hrossaræktin mín er frekar smá, en með stór og göfug markmið þ.a.s. rækta viljug, getumikil en jafnframt geðgóð alhliða hross. Ég hef haft gott aðgengi að toppstóðhestum undanfarin ár og nýtt mér það til fulls. Ég á eina 1.verðlauna hryssu úr minni ræktun og nokkrar að ég tel ættgóðar sem ég er að rækta undan, en ég hef þá trú að einn af lyklunum í búfjárrækt sé að nota langræktuð hross þar sem “sterk” gen koma sem víðast fram. Einnig tel ég að úrvalið sem ræktandi framkvæmir sé hans mikilvægasta tól þ.a.s. vera gagnrýninn á sína eigin ræktun og vera sem fljótastur að sjá villu síns vegar og setja af og/eða breyta um stefnu. Ég hef verið með fleiri hryssur í ræktun en ég ætla að setja á af folöldum því að ég hef bara haldið eftir einu hestfolaldi (Váli frá Valhöll) en selt hin þar sem ég hef lagt áherslu á að halda frekar í merfolöld til að halda fjöldanum í skefjum. Ég kenni hrossin mín við Valhöll en það er ekki vegna tengingar við Davíð Odds heldur er það tengingin við goðafræðina og fannst mér við hæfi að hrossin hans Óðins væru frá Valhöll.

Um mig

Ég heiti Óðinn Örn og er fæddur og uppalin í Breiðholtinu í Reykjavík. Ég gekk fyrst í grunnskóla í Hólabrekkuskóla og Seljaskóla svo í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og að síðustu í Landbúnaðarnám að Hólum í Hjaltadal og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Í dag er ég að vinna sem Dýraeftirlitsmaður hjá Matvælastofnun, ásamt því að ritsstýra hestatímaritinu Eiðfaxa. Fram að þeim tíma sem ég tók við þeim störfum sem ég vinn í dag vann ég við kynbótasýningar í hrossarækt sem sýningarstjóri á kynbótasýningum hér á suðurlandi ásamt Pétri Halldórssyni. Á haustin voru það sauðfjárdómar. ég ferðaðist ég vítt og breitt um suðurland í þeim störfum og hef dæmt fé allt frá Grindavík í vestri til Skaptafellsýslu í austri. Á veturna sá ég um reiðhallarsýningar Hrossaræktarsamtaka suðurlands í Ölfushöllinni. Það eru forréttindi að fá að vinna við áhugamál sín og ekki eru allir svo heppnir. Ég hef nú í nokkur ár stundað hrossarækt og á þrjár hryssur sem ég hef verið að halda.